Flug og bíll
Óljósar fréttir berast af baráttu íslenskra stjórnvalda við ESB vegna fyrirhugaðra breytinga á löggjöf ESB um flugferðir. Óljósar að því leyti að hvorki hefur verið upplýst um hvað hefur farið fram á þeim 100 fundum sem embættismenn hafa setið né hver krafa Íslands er. Í vikunni var birt svar forseta framkvæmdastjórnar ESB við erindi forsætisráðherra sem þó hefur ekki verið birt. Lítil ef nokkur umræða hefur átt sér stað á Alþingi um málið. Hins vegar er ljóst að íslensk stjórnvöld líta málið alvarlegum augum. Örugglega ekki að ósekju.
Breytingin sem ESB boðar er undir formerkjum loftslagsmála. Hún lýtur að auknum gjöldum og kvöðum á flugfarþega. Miklir hagsmunir Íslendinga eru hér undir sem vert að standa vörð um.
Það minnir hins vegar um leið á að undanfarinn áratug hafa íslensk stjórnvöld leitt í lög reglur ESB um svipaðar kvaðir og gjöld á bíleigendur. Þær hafa haft í för með sér milljarða kostnað á hverju ári. Þannig hafa milljarðar króna streymt úr landi í nafni loftslagsmála. Þó er alveg ljóst að gildandi reglur um t.d. íblöndun í eldsneyti og markmið um losun gróðurhúsalofttegunda skipta litlu máli fyrir umhverfið. Árangurinn af þessum milljarðakostnaði sem heimili og fyrirtæki hafa verið látin bera er langt innan skekkjumarka í svokölluðu losunarbókhaldi Íslands.
Nú þegar 101. fundur er boðaður í flugdeilu Íslands og ESB, hvernig væri þá að íslenskir ráðherrar og þingmenn litu sér einnig nær og út um eldhúsgluggann á umferðina hér heima og spyrðu sig eftirfarandi spurninga:
Hvers vegna er ekki höfð uppi sama hagsmunagæsla fyrir bíleigendur og flugfarþega? Af hverju er Ísland að keppast við að uppfylla reglur sem miðaðar eru við aðstæður á meginlandi Evrópu en eiga engan veginn við hér á landi þar sem 90% allrar orkunotkunar er endurnýjanleg? Af hverju í ósköpunum?
„Af hverju er Ísland að keppast við að uppfylla reglur sem miðaðar eru við aðstæður á meginlandi Evrópu?“
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu laugardaginn 25. mars 2023.