Hæstiréttur talinn óþarfur
Þá hefur það gerst að ríkisstofnun hefur samið um að leita ekki til Hæstiréttar Íslands með ágreining fyrir dómi. Ætli þetta sé ekki í fyrsta sinn sem svo afdráttarlaus afstaða stjórnvalds til Hæstaréttar hafi komið fram með þessum hætti.
Efling og embætti ríkissáttasemjara sömdu um í félagatalsmálinu svokallaða að leita ekki til Hæstaréttar að fenginni niðurstöðu Landsréttar í málinu. Niðurstaða Landsréttar liggur nú fyrir Eflingu í hag og þar með snúið úrskurði héraðsdóms (og reyndar með nokkuð sannfærandi rökstuðningi, að mínu mati). Hins vegar hefur hvorki komið fram í fréttum hver átti hugmyndina að slíkum samningum né ástæður slíks samkomulags. Því má þó vissulega velta fyrir sér hvort að embættismaður geti afsalað sér, fyrir hönd embættisins, rétti til að leita til dómstóla. Ef þessu embætti ríkisins er ætlað að vera í þágu allra borgara landsins, ekki bara samningsaðila, þá má ætla að skyldur ríkissáttasemjara lúti að því að halda til haga öllum rétti borgaranna, m.a. til umfjöllunar dómstóla, en ekki gefa hann eftir.
Kannski er þetta tímanna tákn. Kannski var þessi ákvörðun ríkissáttasemjara undir áhrifum sívaxandi fjölda dómsmála sem hreinlega ætla engan endi að taka. Kannski var ríkissáttasemjari undir áhrifum þeirra sem telja einmitt Hæstarétt ekki lengur eiga síðasta orðið við lausn ágreiningsmála fyrir dómi. Því hafi það takmarkað gildi að tæma dómstólaleiðina hér innanlands.