Hvað á næsta ríkisstjórn að gera?
Stuttu eftir kosningarnar í vor var ég beðin um að setja á blað skilaboð mín til næstu ríkisstjórnar fyrir hið ágæta þjóðmálarit Þjóðmál. Ritið lagði fram þá spurningu sem hér er í yfirskrift. Auk mín svara henni Ragnhildur Kolka, Hannes H. Gissurarson og Heiðrún Lind Marteinsdóttir.Ég kaus af þessu tilefni að nefna þrennt sem ég tel brýnt að ný ríkisstjórn leggi áherslu á: skattalækkanir, samgöngumál og heilbrigðismál. Greinina má finna hér.Það er einkum þrennt sem ný ríksstjórn ætti að leggja megináherslu á. Skattalækkanir, breytingar í heilbrigðiskerfinu og samgöngumál.SamgöngumálHvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá er staðreyndin sú að sífellt fleiri landsmenn kjósa að búa á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekkert einkennilegt við þessa þróun í jafnfámennu en stóru landi og Íslandi. Þetta þurfa stjórnmálamenn að viðurkenna og bregðast við með jákvæðum hætti að því marki sem yfirleitt þarf að bregðast við þróun af þessu tagi. Óhjákvæmilega hefur álag á vegi um höfuðborgarsvæðið aukist til muna undanfarin ár. Hvorki Reykjavikurborg né sveitarfélögin í nágrenni hennar hafa brugðist við þessari aukningu sem skyldi. En það hefur ríkið ekki heldur gert. Þjóðvegir sem liggja til höfuðborgarsvæðisins og um það hafa ekki verið ofarlega á verkefnalista samgönguyfirvalda ef frá er skilin breikkun Reykjanesbrautar.Ný ríkisstjórn á að láta sig samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu miklu varða. Taka þarf tillit til þess að svæðið allt frá Selfossi til Borgarness er eitt atvinnu- og frístundasvæði stærsta hluta þjóðarinnar. Við uppbyggingu vegakerfis í þessum landshluta verður hafa umferðaröryggi að leiðarljósi og skapa möguleika á hnökralausri umferð á milli fjarlægustu staða á þessu svæði. Hringvegur um Reykjavík og stærstu sveitarfélögin er forsenda þess að minnka umferðarálag í borginni en mönnum er einmitt tíðrætt um nauðsyn þess um þessar mundir.Í þessari uppbygginu, og reyndar um landið allt, er mikilvægt að ríkið nýti kosti einkaframkvæmdar og láti jafnvel einkaaðilum það alfarið eftir að leggja og reka vegi þar sem aðstæður leyfa.HeilbrigðismálÞað er fagnaðarefni að Sjálfstæðisflokkurinn fái nú stjórn heilbrigðismála í sínar hendur. Mikilvægt er að næstu fjögur ár verði vel nýtt og áherslur flokksins í heilbrigðismálum einkenni störf nýs heilbrigðsráðherra. Ríkisstjórnarsáttmálinn gefur fögur fyrirheit hvað þetta varðar. Stefnt skal að aukinni fjölbreytni í rekstri og fjármögnun á sviði heilbrigðismála. Þetta er reyndar einnig í samræmi við það sem Samfylkiningin hefur boðað á síðustu misserum og er líklega ein helsta stefnubreyting jafnaðarmanna síðari ár. Það á því að vera mikil sátt um þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera í málaflokknum. Rekstur Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH) er án efa umfangsmesta verkefnið framundan. Nú í aðdraganda byggingar nýs húsnæðis liggur á að endurskoða hlutverk spítalans með það að markmiði að færa ýmsa þjónustu frá honum. Að einhverju leyti má færa þjónustu á aðra spítala á höfuðborgarsvæðinu og heilsugæslu og skapa þannig svigrúm fyrir LSH til þess að takast betur á við þá þjónustu sem nauðsynlegt er að sé veitt nákvæmlega á LSH. Hins vegar er mikilvægasta verkefni nýs heilbrigðisráðherra að gefa einkaaðilum tækifæri til þess að takast á við heilbrigðisþjónustu í ríkari mæli en þegar er gert. Heilsugæslan er gott dæmi um hvar taka má til hendinni í þessum efnum. Reynslan hérlendis og erlendis hefur sýnt að einkarekin heilsugæsla er líklegri en opinber heilsugæsla til þess að auka gæði þjónustu, afköst og þar af leiðandi hagkvæmni í rekstri til lengri tíma. Á kjörtímabilinu á að fela einkaaðilum rekstur heilsugæslunnar.Tækninni fleygir fram og læknavísindin fylgja með. Um leið hafa kröfur neytenda um gæði heilbrigðisþjónustu og lítinn biðtíma aukist. Tæknin hefur gert það kleift að margar flóknar og viðamiklar aðgerðir má nú gera utan veggja hátæknisjúkrahúss með lægri kostnaði. Mörg dæmi eru um þetta á Íslandi í dag; bæklungaraðgerðir, tæknifrjógvun, augnaðgerðir. Allt eru þetta læknisverk sem mikil eftirspurn er eftir. Við eigum hins vegar langt í land með að nýta okkur til fulls kosti einkareksturs og eigum að vinna að því á kjörtímabilinu.SkattalækkanirÞví er stundum haldið fram að skattalækkun sé háð árferði. Ekki megi lækka skatta þegar aðstæður á markaði sé séu með tilteknum hætti. Því er hins vegar aldrei svarað við hvaða aðstæður sé heppilegt að lækka skatta. Í ríkisstjórnarsáttmálanum kemur þetta sjónarmið fram en þar segir að afnema eigi stimpilgjald í fasteignaviðskiptum þegar aðstæður á fasteignamarkaði leyfa. Hvaða aðstæður eru það? Þegar fólk hættir að kaupa fasteignir? Er það fyrirsjáanlegt?Þetta sjónarmið er byggt á misskilningi á eðli skattheimtu. Skattheimta dregur ekki úr þenslu. Hún þvert á móti veitir ríkinu aukin fjárráð á kostnað almennnings og býður því heim hættunni á auknum ríkisútgjöldum sem er helsta orsök þenslu. Það er ekkert sem bendir til þess að einstaklingar fari verr með fé heldur en stjórnmálamenn heldur þvert á móti. Þess vegna er brýnt að á þessu kjörtímabili haldi menn áfram á þeirri braut skattalækkana sem mörkuð hefur verið.Það er raunhæft markmið fyrir þetta kjörtímabil að koma tekjuskatti fyrirtækja niður í 14% þótt stefna beri á 10% til lengri tíma. Staðgreiðsluskatthlutfall einstaklinga á að lækka niður í 30%. Það þýðir að tekjuskatt ríkisins þarf að færa niður í 18%. Þá er afar mikilvægt að sveitarfélögin verði ekki útundan í skattaumræðunni. Sveitarfélög þurfa að eiga möguleika á að lækka útsvarið og því þarf að afnema lögbundið lágmarksútsvar sveitarfélaga.Stjórnarsáttmálinn veitir fyrirheit um endurskoðun á kerfi vörugjalda og virðisaukaskatts. Að ósekju hefði í þessu sambandi mátt nefna almenna tolla. Það er bæði raunhæft markmið og nauðsynlegt að afnema alla almenna tolla. Landbúnaðartolla þarf markvisst að lækka og upplýsa neytendur og bændur um framtíðarsýn stjórnvalda í þeim efnum.Að halda aftur af sér Í upphafi nýs kjörtímabils og við skipan nýrrar ríkisstjórnar hafa menn eðlilega miklar væntar til nýrrar ríkisstjórnar. Margir velta fyrir sér þeirri spurningu sem sett er fram í þessu tölublaði Þjóðmála um hvað ríkisstjórnin eigi að gera. Það væri þó ómaksins vert að velta hinu fyrir sér, hvað það er sem ríkisstjórnin á ekki að gera. Hér er ekki tilefni til þess að reifa hugmyndir um það en læt nægja að benda á eftirfarandi.Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar stendur sterk að vígi með mikinn meirihluta þingmanna að baki sér. Þessu fylgja auðvitað ýmsir kostir en ókostirnir blasa þó við. Aðhald þingmanna flokkanna gagnvart ríkisstjórninni er minna en ella. Það býður heim hættunni á að mál, jafnvel mikil útgjaldamál, renni umræðulítið og kannski vanhugsuð í gegnum Alþingi.Ný ríkisstjórn þarf að kunna þá list að halda aftur af sér. Segja stundum, helst nokkuð oft, nei við bænaskjölum sem henni munu berast. Hún má ekki láta góða stöðu ríkissjóð villa sér sýn. Ráðdeild í ríkisrekstri er nefnilega aldrei eins aðkallandi og einmitt við þær aðstæður sem nú ríkja, góðæri og stöðugan hagvöxt. Einmitt þá gerir almenningur kröfu um að fá að halda stærri hluta tekna sinna eftir til eigin ráðstöfunar.Greinin birtist í Þjóðmálum, 2. tbl. (júní) 2007.