Hverjir stjórna hér?
Snemma á árinu var auglýst hér á landi staða þess dómara við Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) sem skipuð skal Íslendingi. Í miðju skipunarferlinu var staðan svo auglýst öðru sinni því tveir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka eftir langt umsóknarferli.
Dómarar við MDE eru kosnir af þingi Evrópuráðsins. Þingið er pólitískur umræðuvettvangur en um leið lýðræðislegur að því leyti að það er skipað lýðræðislega kjörnum þingmönnum frá aðildaríkjunum. Fyrir Íslands hönd sitja þingið nú þingmenn úr VG, flokki Pírata og Sjálfstæðisflokki. Evrópuráðsþingið skal greiða atkvæði um þrjá umsækjendur sem Ísland tilnefnir eftir umsóknarferli hér á landi og í Strassborg. Hvorki fleiri né færri. Það vildi svo vel til að einmitt þrír íslenskir lögfræðingar sóttu um stöðuna.
Allt samkvæmt bókinni?
Í samræmi við reglur var sett á laggirnar hér á landi nefnd til að meta hæfni þessara umsækjenda. Hæfnisnefndin var skipuð af forsætisráðherra. Nefndin skilaði forsætisráðherra umsögn um umsækjendur og mat alla umsækjendur hæfa og frambærilega til starfans. Undir það mat tók sérleg ráðgjafarnefnd Evrópuráðsins sem einnig er ætlað að vera íslenskum stjórnvöldum til ráðgjafar um þessa tilnefningar. Á mati þessara tveggja hæfnisnefnda byggði forsætisráðherra er hún tilnefndi umsækjendurna þrjá og varpaði boltanum til Evrópuráðsþingsins. Um þá skyldi kosið þar.
Til að undirbúa þingmenn fyrir atkvæðagreiðsluna felur Evrópuráðsþingið nefnd 22 þingmanna að taka viðtöl við umsækjendur. Gætt er að því að þingflokkarnir sem myndast hafa á Evrópuráðsþinginu eigi sína fulltrúa í þessari undirnefnd í samræmi við þingstyrk. Formaðurinn nú er sósíalisti frá Rúmeníu. Enginn Íslendingur á sæti í nefndinni. Fyrirkomulagið er í sjálfu sér fyrirsjáanlegt og væri ekki umhugsunarvert ef ekki hefðu borist undarlegar fréttir af störfum þessarar undirnefndar við skipun hins íslenska dómara. Tveir umsækjendanna drógu skyndilega umsóknir sínar til baka eftir að hafa sótt viðtalstíma hjá þingmönnum undirnefndarinnar.
Það er ekki óþekkt að umsókn um starf sé dregin til baka. Annað tveggja kemur þá yfirleitt til. Persónulegir hagir umsækjandans hafa skyndilega breyst eða umsækjandinn hefur sannfærst um að honum sé ekki til setunnar boðið. Að tveir af þremur umsækjendum, sem hafa lagt áratuga lögfræðistörf sín fyrir hæfnisnefndir hérlendis og erlendis með góðum árangri, skuli draga umsóknir sínar til baka hlýtur að vekja spurningar sem þó virðast ekki hafa verið lagðar fram.
Óútskýrð afturköllun
Ekki fylgdi fréttum af þessum sinnaskiptum nein vísun til persónulegra haga umsækjenda. Einungis var fjallað um vangaveltur um skort á kunnáttu í frönsku, sem þó er ekki lagaskilyrði til þess að gera kröfu um, og um fyrri störf umsækjendanna. Allt þættir sem hæfnisnefndirnar báðar skoðuðu sérstaklega og gerðu ekki að frágangssök.
Forsætisráðherra lýsti því í fréttum 22. júní sl. að að öllu leyti hefði verið rétt á málum haldið af Íslands hálfu við tilnefningu dómaraefna. Undir það má trúlega taka. Það lítur hins vegar út fyrir að afskipti undirnefndar þingmanna hafi leitt til þess að tveir umsækjendur hætta báðir við á sama tíma. Forsætisráðherra þarf að svara því hvort hún eða önnur stjórnvöld hafi rannsakað þetta nánar. Því þarf líka að svara hvort einstaka þingmenn Evrópuráðsþingsins hafi þau völd umfram atkvæðisrétt sinn í þingsal að geta komið í veg fyrir að kosið verði um tiltekna umsækjendur sem Ísland tilnefnir. Hvert nákvæmlega er hlutverk þingmannanefndarinnar?
Var Ísland gert afturreka?
Forsætisráðherra telur það auðsótt mál og eðlilegt að auglýsa bara eftir nýjum umsækjendum, „eins og okkur ber að gera“, eins og hún orðaði það í fréttum. Það má vel vera að það sé rétt að gera það þótt auðvitað beri Íslandi ekki neitt í þeim efnum. Það blasir hins vegar ekki við að málið sé svo einfalt. Hafi Ísland verið gert afturreka, með beinum eða óbeinum hætti, með hæfa umsækjendur sem Ísland tilnefndi kallar það á sérstaka umfjöllun bæði Alþingis og stjórnvalda. Það þarf með öðrum orðum að upplýsa um ástæður þess að umsækjendurnir drógu sig til baka. Það kann vel að vera að forsætisráðherra VG kunni því vel að Hæstiréttur Íslands fari ekki lengur með æðsta dómsvald hér á landi. Það er þá bara eðlilegt framhald að erlendir þingmenn stjórni því hvaða Íslendinga íslensk stjórnvöld tilnefna til setu í MDE. En forysta Sjálfstæðisflokksins og þingmenn hans? Skyldi brá af þeim núna? Eða er hún nú meitluð í stein sama uppgjöfin og menn sýndu gagnvart stofnunum Evrópu í Icesave-málinu?
Þessu tengt þá má rifja upp að MDE hefur haft miklar skoðanir á því hvernig dómarar hafa verið skipaðir hér á landi. Nýlega samdi ríkisstjórn VG við sakfellda menn, m.a. ofbeldismenn sem játað höfðu brot sín, um bætur vegna dóma sem kveðnir voru upp af dómurum, löglegum og réttmætum í sínum embættum, sem ég skipaði með samþykki Alþingis. Engin lagastoð er fyrir greiðslu slíkra bóta en tilmæli um þær komu frá MDE. Mér er til efs að nokkurt evrópskt ríki hefði látið bjóða sér þessa framkomu en forsætisráðherra Íslands taldi einboðið að bugta sig og beygja fyrir hinni erlendu stofnun og seilst var í vasa skattgreiðenda.
„Hafi Ísland verið gert afturreka, með beinum eða óbeinum hætti, með hæfa umsækjendur sem Ísland tilnefndi kallar það á sérstaka umfjöllun bæði Alþingis og stjórnvalda.“
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. ágúst 2022.