Icesave er einfalt mál

Frá sjónarhóli sjálfstæðismanna eru aðalatriði deilnanna um Icesave-kröfur ríkisstjórna Bretlands, Hollands og Íslands á hendur íslensku þjóðinni einföld og auðskilin. Þau eru þessi:1. Engin ríkisábyrgð var nokkurn tíma á þeim netreikningum sem áhættusæknir breskir og hollenskir fjármagnseigendur lögðu sparifé sitt á, í von um hæstu ávöxtun. Bresk og síðar hollensk yfirvöld ákváðu hins vegar að bæta þeim tapið, upp að því sem tryggingasjóður innstæðueigenda hafði ábyrgst. Þetta gerðu þau ekki vegna þess að nokkur lagaskylda væri til slíks, heldur vegna þess að þau óttuðust áhlaup á aðra banka. Bresk og hollensk stjórnvöld ákváðu síðan að sjá hvort þau gætu ekki fengið íslensk stjórnvöld, skelfingu lostin eftir bankahrunið hér, til þess að borga þennan herkostnað fyrir sig. Þar mátu þau staðfestu og úthald íslenskra stjórnmálamanna rétt.2. Icesave-frumvarp vinstristjórnarinnar, sem hún reynir allt hvað hún getur að fá stjórnarandstöðuna til að ábekja, svona eins og svindlari vill fá sómakæran einfeldning aftan á falsaðan víxil, er einfaldlega frumvarp um að stórfelldar skuldir einkabanka skuli teknar, án dóms og laga, og lagðar á íslenska skattgreiðendur næstu ára og áratuga. Það er í raun það sem þeir berjast fyrir, þessir sem ólmir segjast vilja „klára málið“. Í hugum þeirra er þetta grundvallaratriði ekki annað en eitthvert reikningsdæmi.3. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, æðsta vald í málefnum flokksins, tók mjög eindregna afstöðu til málsins síðasta sumar. Fyrir fundinum lágu drög að ályktun þar sem kröfum Breta og Hollendinga var eindregið mótmælt og þær sagðar ósanngjarnar. Fundurinn breytti þeim drögum með afgerandi hætti og mótmælti kröfunum, í nafni Sjálfstæðisflokksins, alfarið og endanlega, sem „löglausum“. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur þannig hafnað nýjum og gömlum Icesave-frumvörpum vinstristjórnarinnar og verður sú eindregna stefna flokksins ekki endurskoðuð af öðrum stofnunum hans.4. Nýjasta Icesave-samkomulagið er skárra en það síðasta. Fyrr mætti líka vera. En hversu skárra það er veit enginn. Ekki einu sinni fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd sem nú hafa sent frá sér yfirlýsingu um að það sé viðunandi. Fyrir liggur að áhætta Íslands af samþykkt frumvarpsins er vel yfir tvö hundruð milljarðar króna – í erlendum gjaldeyri. Ef einhver heldur að á milli síðasta Icesave-samkomulags og þess nýjasta sé himinn og haf, þá er sá maður sennilega svo djúpt á kafi að hann er hættur að sjá til himins.Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. febrúar 2011.

Previous
Previous

Icesave er einfalt mál

Next
Next

„Vali þjóðarinnar“ verður breytt