Kostnaður við Landsréttarmál
Það er þakkarvert að tekinn hafi verið saman kostnaður vegna málaferla og annarra þátta sem spunnust af deilum um skipun 15 dómara við Landsrétt. Sjá hér á vef Alþingis svar dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn.
Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að menn leysi úr lögfræðilegum ágreiningi um ákvarðanir stjórnvalda hér innanlands. Eins og svo sannarlega hefur verið gert í þessu máli og mýmörgum öðrum.
Langstærsti hluti kostnaðarins, um 120 milljónir af 140 milljónum, stafar hins vegar af því að Mannréttindadómstóll Evrópu var ósammála niðurstöðu allra greina ríkisvaldsins, ráðherra, Alþingis, forseta Íslands og Hæstaréttar Íslands um að skipan dómaranna 15 hafi verið lögmæt.
Það er sannarlega umhugsunarefni að embættismenn frá hinum og þessum löndum Evrópu sem sitja í skattfrelsi og ábyrgðarleysi í erlendri stofnun geti valdið slíkum óskunda.
Í svari dómsmálaráðuneytisins kemur fram að ótalinn sé kostnaður af starfi dómnefndar um hæfni umsækjenda. Það er í hæsta máta undarlegt að ekki skuli upplýst um þann kostnað. Ég hvet til þess að það verði gert hið fyrsta.