Lagaheimild og nauðsyn
Hinn 20. júlí sl. gaf heilbrigðisráðherra út reglugerð um breytingu á 6. gr. stofnreglugerðar um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri íslands sem kvað á um skyldu ferðamanna til þess að framvísa neikvæðu Covid-prófi við innritun í flug erlendis. Frétt var birt um þetta á vef heilbrigðisráðuneytisins og tekið fram fram að regulgerðin tæki ekki gildi fyrr en 27. júlí. Fréttir almennra fjölmiðla báru það með sér strax í kjölfarið að regla þessi myndi eiga við um alla, þ.m.t. íslenska ríkisborga á heimleið.
Athygli mína vakti að enginn fjölmiðill velti upp þeirri spurningu hvort efni hinnar nýju reglugerðar, sem fjallar um aðgerðir í öðrum löndum en ekki á landamærum Íslands, ætti yfirhöfuð undir valdsvið heilbrigðisráðherra og reglugerðar hans um sýnatöku á landamærum Íslands. Heilbrigðisráðherra hefur áttað sig á þessu í tíma því reglugerð þessi féll úr gildi með nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra hinn 28. júlí. Hún kveður á um réttindi þeirra sem hafa framvísað neikvæðu Covid-prófi við innritun erlendis. Stuttu áður hafði verið birt reglugerð samgönguráðherra um skyldur flugrekenda við innritun í flug til Íslands, m.a. þá að krefjast nú ekki bara bólusetningarvottorðs, eins og áskilið hafði verið frá 1. júní sl., heldur einnig neikvæðs Covid-prófs. Reglugerð samgönguráðherra vekur hins vegar líka spurningar sem sætir furðu að hafa ekki verið til umfjöllunar, einkum í ljósi lagasetningar frá því maí sl.
Undir lok maí sl. voru nefnilega samþykkt lög á alþingi um breytingu á lögum um loftferðir nr. 60/1998. Með lagabreytingunni var samgönguráðherra veitt heimild til bráðabirgða til að leggja þá tímabundnu skyldu á flugrekendur til að kanna hvort farþegar hafi tilskilið vottorð áður en farið er um borð í flugvél. Frumvarpið, sem samgönguráðherra sá sér reyndar ekki fært að leggja fram sjálfur heldur fékk samgöngu- og umhverfisnefnd alþingis til þess að taka það að sér, fékk sérstaka efnislega umræðu um m.a. stöðu íslenskra ríkisborgara. Að henni lokinni var sú breyting gerð á málinu að íslenskir ríkisborgarar voru undanskyldir rannsóknarskyldu flugrekenda við innritun erlendis. Á þetta hefur ekkert verið minnst í fréttaflutningi af málinu að því undanskyldu að Icelandair lýsti því yfir að íslenskum ríkisborgurum yrði ekki neitað um flug þótt þeir geti ekki framvísað neikvæðu prófi. Félagið varar þó við sektarboði íslenska ríkisins við heimkomu. Engin umræða hefur verið um sektarheimildir gagnvart einstaklingum í þessum tilvikum. Íslenska flugfélagið Play segist ekki geta annað en krafið alla íslenska ríkisborgara um neikvætt próf við innritun. Engum sögum fer af framkvæmd erlendra flugfélaga sem fljúga til Íslands.
Það sem mestu máli skiptir þó hér er að sú skylda flugrekenda sem á þá kann að vera lögð með heimild í bráðabirgðaákvæðið frá því maí, og lögð hefur verið á þá frá 1. júní með breytingunni þann 27. júlí sl., takmarkast við það að óska eftir einu vottorði af þremur mögulegum, sbr. skýrt orðalag bráðabirgðarákvæðisins:
Ef hætta er á að farsóttir berist til eða frá Íslandi, og almannaheilbrigði krefst, er ráðherra heimilt að kveða á um tímabundnar skyldur flugrekenda/umráðenda loftfars til að tryggja sóttvarnir með reglugerð, sem hér segir:
a. Skyldu til að kanna hvort farþegi hafi fullnægt skyldu til forskráningar og hafi tilskilið viðurkennt vottorð um ónæmisaðgerð gegn COVID-19 (SARS-CoV-2), vottorð um að COVID-19-sýking sé afstaðin eða vottorð eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu prófs gegn COVID-19 (SARS-CoV-2) áður en farið er um borð í loftfar, enda hafi slík skylda verið lögð á farþega á grundvelli sóttvarnalaga.
b. Skyldu til að synja farþega um flutning geti hann ekki framvísað tilskildu vottorði eða staðfestingu skv. a-lið.
Þrátt fyrir b-lið 1. mgr. tekur skylda til að synja farþega um flutning ekki til íslenskra ríkisborgara.
Reglugerð skv. 1. mgr. skal sæta endurskoðun eigi sjaldnar en á fjögurra vikna fresti.
Reglugerð sem samgönguráðherra setti 1. júní sl. var í fullkomnu samræmi við þennan texta laganna. Hinn 27. júlí gerði hann hins vegar breytingu á reglugerðinni sem virðist ekki í samræmi við skýran lagatextann. Reglugerð ráðherra hljóðar því núna þannig (breytingin er feitletruð):
Öllum flugrekendum/umráðendum loftfara er skylt að kanna hvort farþegi hafi, áður en farið er um borð í loftfar, fullnægt skyldu til forskráningar og hafi tilskilið viðurkennt vottorð um ónæmisaðgerð (bólusetningu) gegn COVID-19 (SARS-CoV-2); eða vottorð um að COVID-19 sýking sé afstaðin; eða vottorð eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu prófs á COVID-19, enda hafi slík skylda verið lögð á farþega á grundvelli sóttvarnalaga, sbr. reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19, eins og hún er á hverjum tíma. Farþegi sem framvísar viðurkenndu vottorði um ónæmisaðgerð gegn COVID-19 eða vottorði um að COVID-19 sýking sé afstaðin skal að auki framvísa vottorði eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu COVID-prófs sem er annaðhvort kjarnsýrupróf (PCR-próf) eða mótefnavakapróf (antigen próf, hraðpróf), sem er ekki eldra en 72 klst. Skyldur flugrekenda/umráðenda loftfara til að kanna hvort farþegi hafi framangreind vottorð eða staðfestingu nær aðeins til þess að staðreyna nafn farþega á vottorði eða staðfestingu og gildis- og útgáfutíma skjals, ef við á, og kanna hvort vottorð eða staðfesting beri með sér yfirbragð þess að vera vottorð eða staðfesting í samræmi við fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda.
Er það mat ráðherra að lögin bjóði upp á að skyldan verði víkkuð út til þess að óska eftir tveimur þeirra vottorða sem talin eru upp í a. lið lagatextans? Rifjum upp að breyting á lögum um loftferðir var gerð í þeim tilgangi að renna lagastoð undir þá framkvæmd sem þá var orðin að heimila bólusettu fólki komu til landsins án annarra kvaða. Skortur á umræðu um þetta atriði vekur furðu mína.
Að lokum rifja ég upp að heimild samgönguráðherra til þess að leggja þessa skyldu á flugrekendur átti samkvæmt frumvarpi samgöngu- og umhverfisnefndar að gilda til loka ársins 2022. Langt umfram það sem bráð hætta eða aðsteðjanda ógn gæti fyrirfram talist. Ég lagði til styttingu á þessu ákvæði og það varð úr að heimildin gildir einungis út þetta ár. Ætlun stjórnvalda var hins vegar ljós.
Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í nafni sóttvarna og sagðar eiga að vera tímabundnar verða það aldrei í hugum þeirra sem setja reglur um þær. Það verður aldrei horfið frá þeirri frelsisskerðingu og mannréttindabrotum sem sóttvarnaaðgerðir hafa haft í för með sér nema skýr forysta sé um það. Þá forystu verður ekki að finna hjá núverandi stjórnvöldum. Hún er vissulega skref í rétta átt sú yfirlýsing sóttvarnalæknis í í vikunni um að hann muni framvegis leggja til aðgerðir með öðrum hætti og að það sé framvegis kjörinna fulltrúa að taka ákvörðun um framhaldið. En þá þurfa að vera til staðar í brúnni kjörnir fulltrúar sem hafa einhvern vott af sannfæringu í þessum málum og staðfestu til að taka af skarið. Þá hefur vantað hingað til við ríkisstjórnarborðið. En nú kunna þeir einn af öðrum að láta sig falla réttu megin hryggjar.