Eytt í eitt í einu

Gjöld ríkis og sveitarfélaga sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Lóðrétti ásinn hefst í 20%. Heimild: hagstofa.is.

Gjöld ríkis og sveitarfélaga sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Lóðrétti ásinn hefst í 20%. Heimild: hagstofa.is.

Heimilin og atvinnulífið hafa vart undan að skapa verðmæti til að mæta sívaxandi útgjöldum ríkis og sveitarfélaga. Á árunum 1980-1985 voru útgjöld hins opinbera að meðaltali 36% af vergri landsframleiðslu en 45% á árunum 2014-2019.

Árið 1988 var hæsta þrep tekjuskatts 35% en nú er það 46%.

Í grófum dráttum má segja að landsmenn séu einum mánuði lengur að vinna fyrir sköttunum á ári hverju en þeir voru í byrjun níunda áratugarins.

Þetta gerðist auðvitað ekki á einni nóttu eða í einu stökki. Þetta gerist þegar við stjórnmálamenn setjum ekki öll góðu málin sem þrýst er á um utan úr bæ – að ógleymdum öllum sendingunum frá Brussel – í stóra samhengið. Í tómarúmi kunna þessi mál hvert um sig að þykja framfaraspor og lýsa metnaði á tilteknu sviði. Er ekki líka eytt í annað eins? Hví ekki þetta eina verkefni í viðbót? En eins og í öðrum búskap þá safnast þegar saman kemur.

Stofnanir og verkefni sem rata inn á fjárlög fara ekki heldur svo glatt þaðan. Þótt tekist sé að einhverju leyti á um mál þegar þau fara í fyrsta sinn á fjárlög þá láta menn gjarnan þar við sitja. Engin tillaga kemur fram um að fella verkefnið út af fjárlögum að ári.

Líklegra er að þaðan í frá verði litið á það sem blóðugan niðurskurð ef framlög í verkefnið hækka ekki ár frá ári. Útgjöld verða eini mælikvarðinn á árangur á því sviði.

Vinstriflokkarnir metast til að mynda mjög um hver getur hrópað hæstu töluna um útgjöld til loftslagsmála. Ég spurði því um daginn á þinginu hvernig árangur væri mældur af 60 milljarða útgjöldum sem gert er ráð fyrir til loftslagsmála á árunum 2020-2024. Vita menn hvort þeir eru að velja hagkvæmustu leiðirnar? Ég mun þurfa að spyrja aftur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. júní 2021.

Previous
Previous

Lagaheimild og nauðsyn

Next
Next

Mislæg