Samfylking um hærri skatta
Það er kannski til of mikils mælst að Samfylkingin hafi sömu stefnu í skattamálum nú og þegar flokkurinn var stofnaður fyrir heilum fimm árum. Það er víst ærin þraut fyrir flokkinn að halda kúrs frá degi til dags. Flokkurinn bauð jú kjósendum upp á þrjú forsætisráðherraefni á fjórum árum - fjögur ef bónorð hans til Halldórs Ásgrímssonar á kosninganótt 2003 er talið með - og því kannski ekki að undra að það reki á reiðanum. Fyrir þingkosningar vorið 2003 reyndi Samfylking að telja kjósendum trú um að flokkurinn ætlaði að lækka skatta. Þetta þótti mörgum sérstæð tilraun því fyrir kosningarnar 1999 boðaði Samfylkingin verulegar skattahækkanir, bæði á ýmsar tekjur og eldsneyti. Í stefnuyfirlýsingu flokksins 1999 var sagt að hann vildi „taka upp fjölþrepa skattkerfi" án þess að það væri útfært nánar. Össur Skarphéðinsson gagnrýndi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar árið 1999 fyrir að hafa lækkað tekjuskatta á allan almenning því einhverjir hefðu bara notað þær „til að eyða í innfluttan lúxus". Fjórum árum síðar sagði Össur það hins vegar „þjóðsögu" að tekjuskattar hefðu verið lækkaðir.Hrasað í fjölþrepunum Fyrir kosningarnar 2003 fór Samfylkingin að slá úr og í varðandi fjölþrepakerfið. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lagði hins vegar áherslu á lækkun jaðarskatta. Í framhaldi af því lagði flokkurinn fram tillögu um hækkun skattleysismarka. Hækkun skattleysismarka dregur úr svigrúmi til að koma á fjölþrepa skattakerfi. Og ekki nóg með það því hækkun skattleysismarka lækkar bara alls ekki jaðarskattana svonefndu. Samfylkingin hefur heldur ekki stutt þær skattalækkanir ríkisstjórnarinnar undanfarin ár sem lækkað hafa jaðaráhrifin.Nokkrum vikum fyrir kosningarnar 2003 svaraði Samfylkingin spurningu fréttapósts Samtaka verslunar og þjónustu um virðisaukaskatt á þann veg að flokkurinn ætlaði sér engar breytingar að gera á þeim skatti. Skömmu síðar var það orðin stefna flokksins að lækka virðisaukaskatt á völdum matvælum. Þegar formaður flokksins var spurður um þessi sinnaskipti sagði hann að það hefði verið „símastrákur" á skrifstofu flokksins sem gaf upp ranga stefnu.Það kom ýmsum spánskt fyrir sjónir að við upphaf þings nú í haust lögðu nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar fram lagafrumvarp um lækkun á bensíngjaldi. Það eru aðeins nokkur ár síðan það var stefna flokksins á leggja á „almennan koldíoxíðskatt". Slíkur skattur mundi leggjast á brennslu eldsneytis eins og bensíns. Nú leggja sömu menn til að skattar á eldsneyti verði lækkaðir og taka enn eina u-beygjuna.Ekki núna, ekki svonaUm þessar mundir reynir formaður Samfylkingarinnar svo að bregða fæti fyrir þær lækkanir á tekjuskatti einstaklinga sem eiga að verða um næstu áramót. Það er sama viðkvæðið og áður hjá Samfylkingunni; segist fylgjandi skattalækkunum en bara ekki núna, ekki svona, ekki við þessar aðstæður, ekki í þenslu, ekki í lægð, ekki til allra, ekki án samráðs og alls ekki án umræðustjórnmála.Öllu þessu hringli verður ekki betur lýst en með orðum núverandi formanns Samfylkingarinnar þegar hann var spurður hvers vegna R-listinn hefði hækkað útsvarið eftir að hafa lofað því að lækka gjöld á borgarbúa fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1998: „Þekkir þú einhver dæmi þess, að þeir sem bjóða sig fram til kosninga lofi skattahækkunum?" Greinin birtist í Blaðinu 15. október 2005