Róum okkur
Æstu þig, æstu þig, æstu þig. Þú ert umkringd af óréttlæti og ættir helst að öskra.“ Ég eins og margir aðrir hreifst af keppnisatriði stúlknanna úr mínum gamla skóla, Hagaskóla, í hæfileikakeppni grunnskólanna, Skrekk. Atriðið, þar sem þessi ljóðlína kemur fyrir, hefur verið mjög til umfjöllunar á samfélagsmiðlum og öðrum fjölmiðlum og hlotið afar jákvæð viðbrögð að því er virðist. Frá mínum bæjardyrum séð var það framsetningin, samstillt framkoman og krafturinn sem frá þessum 15 ára stelpum stafaði sem gerði atriðið að verðskulduðu vinningsatriði. Vissulega hæfileikaríkar stúlkur þar á ferð. Hins vegar höfðaði boðskaður verksins ekki til mín, að því marki sem ég yfirleitt skildi hann.Af viðtölum við höfunda verksins og söngtexta, sem lýst hefur verið sem femínískum, má ráða að stúlkurnar séu mjög reiðar vegna framkomu annarra í þeirra garð. Textinn fjallar um stúlku sem reyndi að „brjóta boxið“, reyndi að komast út úr staðalímynd sem henni var ætlað að falla inn í. Um leið er textinn hins vegar svo gegnsýrður af staðalímyndum kvenréttindabaráttu 8. áratugarins að ætla mætti að hann hafi ollið upp úr kellingu á mínum aldri en ekki 15 ára stelpum sem ég held að hafi alist upp með í höndunum allt það sem heimurinn hefur yfirleitt að bjóða. Og þó. Í textanum er fundið að því að krafa um kurteisi sé höfð uppi í samfélaginu. Það er vissulega nýtt sjónarmið í jafnréttisbaráttunni.Eins og það er margt gott sem jafnréttisbarátta kvenna hefur skilið eftir sig og áorkað síðustu hundrað ár þá finnst mér það sorglegt ef hún er nú að staðna eða jafnvel hverfa aftur til þess tíma þegar hún gjarnan byggðist á því að upphefja konur á kostnað karla. Því er haldið fram að það sé auðveldara að vera strákur á Íslandi í dag en stelpa. Samt sýna rannsóknir að strákum líður mun verr í skóla en stelpum, þeir eiga erfiðara með lestur og eru í miklum meirihluta þeirra sem greindir eru með raskanir ýmiss konar. Til hvers eiginlega vísar „feðraveldið“ í söngtexta hinna 15 ára hagskælinga? Kannski til allra þeirra miðaldra karla sem skipuleggja ekki málfund án þess að leita til konu um framsögu, jafnvel þótt fundurinn fjalli um líf með blöðruhálskirtli. Eða kannski til stelpnanna sem hafa stýrt skólablöðunum og gert með þeim skólasystrum sínum lífið leitt eins og fjallað hefur verið um nýlega.Jafnrétti er mannréttindi einstaklinga, ekki hópa. Ég vona að hæfileikaríku Vesturbæingarnir syngi einhvern tímann um rétt einstaklinganna til þess að vera virtir á eigin forsendum en ekki annarra af sama kyni. Ég skal þá dansa með.
Eins og það er margt gott sem jafnréttisbarátta kvenna hefur skilið eftir sig og áorkað síðustu hundrað ár þá finnst mér það sorglegt ef hún er nú að staðna eða jafnvel hverfa aftur til þess tíma þegar hún gjarnan byggðist á því að upphefja konur á kostnað karla.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. nóvember 2015 og síðar hjá Kvennablaðinu.