Með múslimum í Túnis
Ég eyddi síðustu helgi í vöggu arabíska vorsins svokallaða, Túnis. Þar sótti ég ráðstefnu AECR (Alliance of European Conservatives and Reformists) ásamt þingmönnum evrópskra stjórnmálaflokka sem vilja standa vörð um lýðræði, frelsi einstaklingsins og frjáls viðskipti. Fundurinn var haldinn í Túnis að þessu sinni vegna áhuga okkar evrópsku þingmannanna á að styðja við bakið á stjórnmálamönnum í löndum araba sem deila þessari hugsjón með okkur, - og já slikir stjórnmálamenn eru svo sannanlega til í hinum múslimska heimi.Ég viðurkenni fúslega að mér þótti ekki borðleggjandi að fara til Túnis svo stuttu eftir blóðsúthellingarnar í Bardo safninu í miðborg Túnis fyrr áárinu og á Sousse ströndinni á austurströnd Túnis í sumar. Túnis er hins vegar eitt frjálslyndasta ríki araba í dag og nokkur vakning þar nú um nauðsynlegar breytingar í lýðræðis- og frjálsræðisátt. Túnis er reyndar kjörinn vettvangur fyrir umræðuefni ráðstefnunnar; frjáls viðskipti og öryggismál í löndum múslima í Norður- Afríku.Í Túnis eru nánast allir múslimar. Þó búa þar einnig gyðingar og kristnir menn. Mér fannst áhugavert að heyra lýsingu túnískrar þingkonu á gerð nýrrar stjórnarskrár sem tók gildi fyrir tæpum tveimur árum. Gyðingar voru inntir álits á efni stjórnarskrárinnar og hvort þeir teldu nauðsynlegt að stjórnarskráin tryggði þeim, sem minnihluta í Túnis, tiltekin sæti á löggjafarsamkundunni. Nei, þeir töldu sig ekki þurfa slíka ívilnun,- aðeins borgarleg réttindi. Þá tók þingkonan sérstaklega fram að stjórnarskráin fjallaði ekkert um sharia (grundvallarreglur íslam) því ekki hafi náðst samstaða um það, - og það væri ótækt að grundvallarlög eins og stjórnarskrá fjalli um eitthvað sem ósamstaða er um meðal þjóðar. Mætti ekki eitthvað læra af þessu?Það var hvorki tilviljun né sérstök viðbrögð við voðaverkunum í París á föstudeginum að öryggismál voru rædd á þessari þingmannaráðstefnu. Land eins og Túnis þar sem nokkuð lýðræði hefur verið fær nú að kenna á múslímskum glæpagengjum sem engu frelsi eira. Því miður er því óhjákvæmilegt að ræða áhrifin sem hryðjuverkaógnin hefur á þróun lýðræðisins þar. Margir óttaslegnir Túnisbúar vilja hverfa aftur til tíma Bens Ali, þess tíma þegar lýðræðið og mannréttindi voru í herkví öryggissjónarmiða. Að einhverju leyti svipuð sjónarmið og sumir evrópskir stjórnmálamenn halda nú á lofti; takmörkunum á t.d. tjáningarfrelsi, persónufrelsi og ferðafrelsi í þágu aukins öryggis. Þetta er hins vegar afar þröng og að nokkru leyti villandi sýn á hugmyndina um öryggi. Aukið öryggi má sín nefnilega lítils í múslimalöndunum ef ekki fylgir með breyting á hugarfari, aukið lýðræði, jafnrétti og virðing fyrir tjáningarfrelsi, verslunarfrelsi og öðrum mannréttindum. Það er þannig alger forsenda aukins öryggis í þessum löndum að lýðræði fáist þar þrifist. Þess vegna var það mikilvægt að evrópskir hægri menn sýndu lýðræðisþróun í þessum löndum stuðning sinn með því að hittast í Túnis og bjóða fram þá aðstoð sem gæti komið að gagni í hugmyndabaráttu heimamanna. Sú barátta verður hins vegar ekki háð af öðrum en heimamönnum sjálfum.Í hópi okkar gestanna frá Evrópu voru margir evrópskir múslimar. Þeirra á meðal Sayeeda Warsi barónessa sem varð yngsti meðlimur bresku lávarðadeildarinnar þegar hún tók þar sæti. Áður hafði hún gegnt ráðherraembætti fyrir breska íhaldsflokkinn og var reyndar fyrsta múslímska konan sem Íhaldsflokkurinn bauð fram í þingkosningum. Sayed Kamall sem situr á Evrópuþinginu fyrir breska Íhaldsflokkinn er formaður flokkagrúppu íhaldsmanna á þeim vettvangi og var einn ræðumanna á ráðstefnunni. Fyrir þingmann af fámennu og tiltölulega einsleitri löggjafarsamkundu var gott að heyra þeirra eindregnu afstöðu til þess hversu mikilvægt það er að lýðræðið nái fram að ganga í löndum múslima. Af því menn tala nú um að auka þurfa öryggi enn frekar í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París þá mega menn leggja allt sitt traust á sérstakar aðgerðir í þeim efnum, sem lúta bara að praktískum þáttum sem hafa skammtíma áhrif. Forsenda öryggis í öllum löndum er að staðinn sé vörður um lýðræðið og réttindi borgaranna til orðs og æðis. Í flestum múslimalöndum er enn langt í land hvað þetta varðar en Túnis er vonandi á réttri leið. Viðskipti og samskipti við þessi lönd hjálpa þróuninni.