Samkeppnisréttur gegn samkeppni
Talsmenn samkeppnisreglna vitna gjarnan til orða Adams Smith í Auðlegð þjóðanna um að menn í sömu atvinnugrein komi sjaldan saman án þess að það leiði til verðhækkana eða einhvers konar samsæris gegn almenningi. Telja menn sig þar aldeilis hafa fundið hauk í horni í baráttunni fyrir alls kyns boðum og bönnum þegar kemur að hinni frjálsu samkeppni.Þeir sem þannig vitna í Adam Smith segja hins vegar ekki nema hálfa söguna og sleppa, meðvitað eða ómeðvitað, að greina frá afstöðu hans til lausnar á þessum vanda. Adam Smith lýsti því nefnilega að það væri ómögulegt að koma í veg fyrir samkundur manna með lögum. Afskipti af þeim gerðu illt verra, væru óraunhæf og gengju gegn frelsi og réttlæti. Smith galt hins vegar varhug við því að ríkisvaldið auðveldaði mönnum að koma sér saman um aðgerðir gegn neytendum og vísaði sérstaklega í því sambandi til alls kyns opinberra skráninga eins og stéttargildin voru, sem á þeim tíma sem Smith lét sig þessi mál varða gáfu atvinnurekendum fullkomna yfirsýn yfir markaðinn og þannig tækifæri til þess að sammælast. Skilaboð Smith með þessu voru þau að til þess að atvinnulífið næði árangri í samsæri gegn almenningi þyrfti ríkisvaldið að veita því liðsstyrk sinn með reglum sem vernduðu atvinnulífið.Dæmi um reglur sem vernda atvinnulífið fyrir samkeppni eru margar í dag. Aðgangshindranir sem einhverju máli skipta á markað eru allar af ríkisins hálfu (tollar, starfsleyfi, fjöldatakmarkanir). Reglur sem beinlínis koma í veg fyrir hagræðingu á markaði er annað dæmi um hlífiskildi ríkisins yfir illa reknum eða óhagkvæmum fyrirtækjum. Það eru neytendur sem bera kostnaðinn af óhagkvæmum rekstri, bæði beint með hærra verðlagi og óbeint með minni þróun og færri nýjum tækifærum sem skapast ef menn einblína eingöngu á að halda úti svo og svo mörgum fyrirtækjum í tiltekinni grein. Af hvaða tækifærum í fjármálaþjónustu hefur almenningur til dæmis misst við það að hér á landi hefur það verið stefna samkeppnisyfirvalda að starfræktir skuli þrír bankar, auk margra sparisjóða fyrir hrun? Og er ekki eitthvað bogið við það að meina litlum fyrirtækjum að leita leiða til þess að hagræða með því að sameinast?Markmiðið með samkeppni er að hámarka hagkvæmni í rekstri og það er í þágu samfélagsins alls. Samkeppni verður ekki tryggð með því að ríkisvaldið mæli svo fyrir um að svo og svo mörg fyrirtæki séu á markaði. Samkeppni er í eðli sínu stöðug breyting á markaði en ekki ljósmynd af einhverju ástandi á tilteknum tímapunkti. Það er til að mynda ekki til neinn óskafjöldi banka. Samkeppnisreglur þurfa að taka mið af þessu.
Reglur sem ætlað er að tryggja samkeppni með hagsmuni neytenda að leiðarljósi snúast gjarnan upp í andhverfu sína.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 8. nóvember 2015.