Sósíalismi 21. aldar?

Sósíalismi-21.-aldar.png

Síðasta helgi var í raun fyrsta fríhelgi sumarsins. Að minnsta kosti hjá þeim sem fylgdust með EM í fótbolta. Ættarmót og aðrar sumarsamkomur sem teygja sig inn á hefðbundinn leiktíma hafa setið á hakanum í júní en hófust af því meiri krafti um síðustu helgi. Samtök frjálsra framhaldsskólanema stóðu fyrir þriggja daga sumarskóla um heimspeki, hagfræði og pólitík með þéttskipaðri dagskrá innlendra og erlendra fyrirlesara. Allir fjölluðu þeir um þessa þætti frá sjónarhóli þess sem kýs frelsi umfram helsi. Ég var þar á meðal og fjallaði um umhverfismál. Þegar ég lauk menntaskóla, fyrir aldarfjórðungi, blasti gjaldþrot sósíalismans við á svo mörgum sviðum. Ekki bara í efnahagsmálum með falli Sovétríkjanna og almennri viðurkenningu á kostum einkarekstrar umfram ríkisrekstur heldur líka í til dæmis siðferð- ismálum og félagsmálum. Þetta skynjuðu vinstri menn ágætlega og þurftu að bregðast við. Þeir veðjuðu á að gera umhverfismál að nýjum farvegi fyrir hugmyndir sínar. Þeir hættu að vera rauðir og urðu grænir. Hægri menn og málsvarar frjálslyndis lögðu vissulega rækt við umhverfismál framan af síðustu öld. En mögulega var það meira en full vinna að lyfta sér upp úr hefðbundnum haftabúskap sósíalismans. Í öllu falli tel ég að hægri menn hefðu mátt láta sig náttúruna meira varða og einmitt huga að henni eins og öðrum verðmætum, með eignarréttinn og einstaklingsfrelsið að leiðarljósi. Mörg verstu umhverfisvandamálin eiga það til að mynda sammerkt að eignarréttur er óskýr. Óskýr eignarréttur býður heim hættunni á ofnýtingu og mengun, að náttúran og umhverfið verði undir í kapphlaupi þar sem enginn gætir höfuðstólsins. Það er sömuleiðis margt að athuga við ýmis bein afskipti ríkisins af þessum málum. Framræsla votlendis að frumkvæði ríkisins er dæmi þar um. Ýmsar reglur eins og um eldsneytismál hafa leitt af sér mikinn kostnað og verri vandamál en þeim var ætlað að leysa. Í sumarskólanum bar ég einnig saman þær leiðir sem helst koma til greina til að fjármagna rekstur á vinsælum ferðamannastöðum. Hér tel ég að hver staður verði að hafa sitt lag á því að hafa fyrir kostnaði, stýra aðgengi og vernda náttúruna. Náttúruvernd þarf ekki síður á fjölbreyttu framtaki einstaklinganna að halda en önnur svið þjóðfélagsins. Ein miðstýrð ríkislausn fyrir alla eins og komugjald, gistináttagjald eða náttúrupassi laðar ekki fram bestu lausnirnar eða æskilega þróun í þessum efnum. En kannski er ekki ástæða til að hafa miklar áhyggjur af þessum málum á meðan ungt fólk á Íslandi ver sumarhelgi í að ræða þau.

Það hafa margir áhuga á umhverfisvernd og vilja fá tækifæri til þess að styðja hana með beinum hætti. Sláum ekki hendinni á móti því.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17. júlí 2016. -saa@althingi.is

Previous
Previous

Frelsisverðlaunin 2016

Next
Next

Endurheimt votlendis