Steinn var lagður í götu rafbíla

tesla.png

Duglegir embættismenn telja það áhyggjuefni hversu seint Ísland innleiðir reglur ESB sem teknar eru upp í EES-samninginn. Ég hef hins vegar lýst því hér á þessum vettvangi að innleiðingarhallinn svokallaði sé ekki áhyggjuefni heldur innleiðing sem slík, með hvaða hætti EES-reglurnar eru innleiddar. Eftir að ég tók sæti nýlega á alþingi hef ég þó séð lagafrumvörp sem ætlað er að innleiða EES-reglu en gera það þó ekki, ýmist þannig að frumvarpið gerir ráð fyrir ákvæðum sem ekki eru í EES-gerðinni eða þannig að einhverjum atriðum úr EESgerðinni er sleppt.Dæmi um þetta er tilskipun Evrópusambandsins 2009/28/EB um endurnýjanlega orku í samgöngum. Í henni er gert ráð fyrir að margfalda megi orkunotkun rafbíla, sem nýta rafmagn frá endurnýjanlegum orkugjöfum, með 2,5 þegar kemur að því að reikna út vægi þeirra hvað endurnýjanlega orku varðar. Eða eins og segir í grein 3 lið 4(c) tilskipunarinnar:  „Við útreikning á notkun raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum vegna rafknúinna ökutækja til aksturs á vegum frá endurnýjanlegum orkugjöfum skal sú notkun ennfremur teljast vera 2,5 sinnum orkuinnihald raforkuílagsins frá endurnýjanlegum orkugjöfum.“Þetta er ekki gert að ástæðulausu og í þessu felst engin ívilnun fyrir rafmagnsbíla. Rafbílar nýta orku um þrisvar sinnum betur en bíll sem til dæmis er knúinn er öðru endurnýjanlegu eldsneyti á borð við lífolíur. Á Íslandi er ógrynni endurnýjanlegrar raforku en nánast ekkert af lífolíum (etanóli eða lífdísil). Ákvæði tilskipunarinnar um rafbíla gæti því verið sérlega mikilvægt fyrir Ísland ef rafbílar verða álitlegur kostur fyrir almenning án stórfelldra skattaívilnana.Þess vegna vekur furðu að vinstristjórnin á síðasta kjörtímabili leiddi þessa tilskipun í íslensk lög vorið 2013 án þessarar sjálfsögðu reiknireglu fyrir rafbílana, sem tilskipunin kveður þó skýrt á um. Það hefur í för með sér að til þess Íslendingar nái markmiði Evrópusambandsins um 10% hlut endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum þyrftu um 25% bílaflotans að ganga fyrir rafmagni. Hins vegar þyrftu aðeins 10% bílaflotans að nota innflutt lífeldsneyti til að ná þessu 10% hlutfalli. Í dag er rafbílunum þannig refsað fyrir góða orkunýtni. Um leið er hvatt til innflutnings á dýrum lífolíum sem oft hafa lægra orkuinnihald en hefðbundið eldsneyti og leiða því til aukinnar eldsneytisnotkunar og mikillar gjaldeyrissóunar.Þessi handvömm vinstristjórnarinnar varðandi rafbíla er eitt þeirra atriða sem við Frosti Sigurjónsson og Willum Þór Þórsson viljum lagfæra með frumvarpi okkar um breytingar á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

>>Í stjórnsýslu skiptir bæði máli formið og efnið. Það er til lítils að standast formkröfur ef efnið heldur ekki vatni.<<

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. apríl 2015. Mynd: teslamotors.com

Previous
Previous

Íslensku vegafé slátrað í Rotterdam

Next
Next

Um stellingar manna í símtölum