Um stellingar manna í símtölum

Fyrir utan kurteisisvenjur þá er það er meginregla að lögum að símtöl manna verða ekki tekin upp án þeirra vitneskju. Þetta hefur verið bundið í lög um árabil, nú í 47. og 48. gr. fjarskiptalaga. Frá þessu er vikið með lagaákvæðum sem heimila upptöku símtala við tilteknar aðstæður, t.d. við rannsókn sakamála. Þegar lög heimila upptökur símtala án vitneskju þeirra sem hlut að eiga þá er gerð krafa um ríka hagsmuni eða grun um alvarlegan glæp og aðkomu dómstóla. Einnig eru í lögum reglur um eyðingu símtala og önnur praktísk atriði.Ekkert af þessum sérreglum á við um upptökur símtala fjölmiðla. Þar gildir meginreglan um að viðmælandi skuli látinn vita af því fyrirfram að símtal við hann sé tekið upp. Fjarskiptalög gera þó ráð fyrir því að ekki þurfi að láta þá viðmælendur vita um upptökuna sem „ótvírætt má ætla“ að sé kunnugt um upptökuna. Sumir fjölmiðlar hafa túlkað þetta sem svo að allir sem fá upphringingu frá manni sem kynnir sig sem blaðamann (hann þarf þá að muna eftir því að kynna sig sem slíkan) megi gera ráð fyrir að símtalið sé hljóðritað. En er það svo? Vissulega þekkja stjórnmálamenn og fjölmiðlafulltrúar vinnubrögðin. Þeir sem sjaldan eða aldrei eru í samskiptum við fjölmiðla gera það hins vegar ekki.Nú liggur fyrir alþingi frumvarp til breytinga á fjarskiptalögum sem miðar að því að skerpa á meginreglunni um tilkynningu til viðmælanda og það skilyrði sett fyrir því að símtöl verði birt opinberlega eða vitnað til þeirra beint að viðmælandinn hafi heimilað það sérstaklega, t.d. með munnlegu samþykki. Verði frumvarpið samþykkt yrði eftir sem áður ekki þörf á sérstöku samþykki viðmælandans fyrir upptökunni umfram það sem felst í því að viðmælandinn haldi samtalinu áfram.Blaðamenn hafa tekið þessari breytingartillögu afar illa. Þeir telja að viðmælendur setji sig í sérstakar stellingar gagnvart blaðamanni ef þeim er tilkynnt um upptöku. Hins vegar halda blaðamenn því fram að öllum megi vera ljóst að símtöl þeirra við blaðamenn séu tekin upp. Þessi rök stangast á. Ef allir viðmælendur fjölmiðla ganga út frá því í dag að símtöl séu hljóðrituð hljóta menn þegar í dag að setja sig í ákveðnar stellingar í símtölum við blaðamenn og frumvarpið boðar enga breytingu að þessu leyti. Staðreyndin er hins vegar sú að fráleitt öll símtöl blaðamanna eru hljóðrituð og viðmælendur eru þannig í algerri óvissu um hvort upptaka sé í gangi eða ekki.Hitt er svo annað, hví mega viðmælendur blaðamanna ekki setja sig í „ákveðnar stellingar“ í samtölum við þá? Varla kemur það niður á fréttagildi viðtalsins þótt menn vandi sig í samskiptum við fjölmiðla.

>>Menn eiga rétt á því að vita ef símtöl þeirra eru hljóðrituð.<<

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 5. apríl 2015.

Previous
Previous

Steinn var lagður í götu rafbíla

Next
Next

Evrópumótið í innleiðingu