Sumarprófkjör í Reykjavík

Mynd SAA 2 sæti fyrir greinar a www.png

Fram und­an er próf­kjör okk­ar Sjálf­stæðismanna í Reykja­vík. Eng­inn flokk­ur hef­ur jafn oft og með jafn­glæsi­leg­um ár­angri leitað til flokks­manna sinna við röðun á fram­boðslista. Ég óska nú eft­ir stuðningi flokks­manna í 2. sætið í próf­kjör­inu. Ég hef á þessu kjör­tíma­bili verið 1. þingmaður Reykja­vík­ur­kjör­dæm­is suður.

Það er ekki bara sem þingmaður og ráðherra í tveim­ur síðustu rík­is­stjórn­um sem ég hef haft að leiðarljósi hina sí­gildu stefnu Sjálf­stæðis­flokks­ins um frelsi manna til orðs og æðis. Mér hef­ur, frá því ég man eft­ir mér, fund­ist brýnt að standa vörð um frelsið. Ekki bara þegar vel geng­ur og all­ir eru kát­ir og hress­ir held­ur ein­mitt þegar sótt er að frels­inu úr öll­um átt­um með misveiga­mikl­um rök­um. Frelsið tap­ast sjald­an í einni svip­an en hægt og bít­andi saxast á það ef stjórn­lyndi, ótti eða and­vara­leysi gref­ur um sig meðal frjáls­lyndra manna.

Ég hef lagt áherslu á að hrinda mál­um í fram­kvæmd frem­ur en að stofna starfs­hópa og fresta ekki brýn­um mál­um jafn­vel þótt skipt­ar skoðanir kunni að vera um þau. Með lýðræðis­legt umboð kjós­enda í fartesk­inu vil ég ganga hreint til verks en er ávallt boðin og búin fyr­ir mál­efna­leg skoðana­skipti. Ég hef haldið uppi mál­efna­legri gagn­rýni frá hægri á ýmis mál rík­is­stjórn­ar­inn­ar, bæði inn­an og utan stjórn­ar. Um leið hef ég liðkað fyr­ir sam­starfi þeirra ólíku flokka sem rík­is­stjórn­ina mynda. Á þessu kjör­tíma­bili og því stutta sem á und­an fór hafa störf mín tekið mið af þess­um áhersl­um.

• Sem dóms­málaráðherra réðst ég strax á fyrstu mánuðum í nauðsyn­leg­ar breyt­ing­ar á lög­um og reglu­gerðum um út­lend­inga. Þess­ar breyt­ing­ar stöðvuðu stjórn­lausa fjölg­un til­hæfu­lausra um­sókna um alþjóðlega vernd frá borg­ur­um ör­uggra ríkja og flýttu fyr­ir af­greiðslu þess­ara mála. Um­sókn­um frá Alban­íu og Makedón­íu fækkaði til að mynda um 90% milli ár­anna 2016 og 2019.

• Ég tók ákvörðun um að gera þing­lýs­ing­ar ra­f­ræn­ar og hratt því verk­efni úr vör með nauðsyn­legri laga­breyt­ingu.

• Ég stöðvaði ára­tuga sjálf­krafa veit­ingu upp­reist­ar æru og er eini ráðherr­ann sem hef­ur neitað að veita upp­reist æru.

• Frum­varp mitt um af­nám laga­ákvæða um upp­reist æru var samþykkt á Alþingi auk viðeig­andi breyt­inga á fjöl­mörg­um laga­bálk­um.

• Ég setti end­ur­nýj­un þyrlu­flota Land­helg­is­gæsl­unn­ar í for­gang og inn á fjár­mála­áætl­un.

• Ég lagði áherslu á að standa vörð um þá styrk­ingu lög­gæsl­unn­ar sem hófst árið 2013 er Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn tók við dóms­málaráðuneyt­inu.

• Ég kynnti til sög­unn­ar mark­mið um gæði lög­gæslu í lög­gæslu­áætlun.

• Ég lét hefja vinnu við frum­varp um skipta bú­setu barna og kynnti það full­búið. Það hef­ur nú verið samþykkt aðeins breytt.

• Frum­varp mitt um af­nám laga­ákvæða sem bönnuðu þjón­ustu á helgi­dög­um var samþykkt á Alþingi.

• Per­sónu­vernd­ar­lög með áherslu á stór­auk­in rétt­indi ein­stak­linga var samþykkt á Alþingi.

• Ég lagði fram laga­frum­varp um aukna vernd tján­ing­ar­frels­is­ins.

• Ég skipaði 15 dóm­ara við nýj­an dóm­stól í ríkri sam­vinnu við Alþingi og að und­an­geng­inni staðfest­ingu Alþing­is. Hvorki fyrr né síðar hef­ur jafn­mik­il­væg stofn­un verið skipuð kon­um og körl­um til jafns frá upp­hafi.

• Ég kynnti aðgerðaáætl­un um meðferð kyn­ferðis­brota í rétt­ar­vörsl­unni sem hef­ur verið og verður áfram grund­völl­ur breytts verklags hjá lög­reglu og dóm­stól­um.

Sem þingmaður hef ég og mun áfram tala fyr­ir raun­hæf­um leiðum í sam­göngu­mál­um og um­hverf­is­mál­um, fjöl­breytt­ara rekstr­ar­formi í heil­brigðisþjón­ustu og lægri álög­um á fólk og fyr­ir­tæki. Nú þegar við losn­um úr viðjum veirunn­ar hafa tæki­fær­in til að tala máli heim­il­anna og at­vinnu­lífs­ins sjald­an verið betri. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn á brýnt er­indi við kjós­end­ur í haust. Hann þarf að leiða næstu rík­is­stjórn á for­send­um hinn­ar sí­gildu stefnu sinn­ar um frelsi gegn helsi. Ég vil leggja mitt af mörk­um til að svo verði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. maí 2021.

Previous
Previous

Samgöngur í Reykjavík

Next
Next

Eldgosið tekur fram úr bílnum