Samgöngur í Reykjavík

Það er að sjálfsögðu tími til kominn að fé sé eyrnamerkt samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki síst í Reykjavík sem hefur verið fjársvelt í vegamálum að eigin ósk. Í þessu ljósi eru 120 milljarða útgjöld sem samgöngusáttmálinn svokallaði gerir ráð fyrir til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu næstu 15 árin engin ofrausn. Þá má vel fagna því ef ríki og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu koma sér saman um forgangsröðun framkvæmda á þessu tímabili. Reykvíkingar bera hins vegar skarðan hlut frá borði í þesssum áformum.

Af þessum 120 milljörðum á 41% að fara í almenningssamgöngur sem anna nú 5% ferða og 43% í vegaframkvæmdir sem nýttar eru í 74% tilvika (sjá könnun á ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu 2019 ). Afganginum af þessum 120 milljörðum er ætlað í göngu- og hjólastíga, göngubrýr, umferðastýringu og almennar öryggisaðgerðir á höfuðborgarsvæðinu.

Af 11 framkvæmdum sem áætlaðar eru við stofnvegi eru aðeins fjórar í Reykjavík sem þjóna umferðinni í Reykjavík sérstaklega. Tvær þeirra framkvæmda þjóna litlum tilgangi ef markmiðið er að bæta flæði umferðar. Þannig fjölgar ekki umferðaræðum borgarinnar þótt umferð Miklubrautar verði færð ofan í stokk, eins og áform eru um, og ekkert annað er gert samhliða, sem ekki eru áform um. Að setja Miklubrautina í stokk við Miklatún myndi vissulega losa okkur við tafsöm gatnamót við Löngumýri. Framkvæmdin sem slík myndi hins vegar raska umferð á þessari meginumferðaræð Reykjavíkur stórkostlega í mörg ár. Ávinningurinn af slíkri framkvæmd er lítill ef ekki á um leið að fjölga leiðum fyrir umferð.

Fjárveitingarvaldið, Alþingi, verður að gera það að skilyrði fyrir milljarða útgjöldum úr ríkissjóði í samgöngumál á næstu misserum að þeir fjármunir séu nýttir til þess að greiða fyrir umferð en ekki tefja hana.






Previous
Previous

Tekið á tilhæfulausum umsóknum

Next
Next

Sumarprófkjör í Reykjavík