Tíst frá alþingi
Áður fyrr lögðu fjölmiðlar metnað í að fylgjast með gangi máli á alþingi. Nánast allir höfðu þingfréttaritara við Austurvöll og fréttir af þingstörfum áttu sinn fasta sess í að minnsta kosti prentmiðlum. Verulega hefur dregið úr þessu þótt fulltrúar tveggja stærstu útvarpsstöðvanna hafi enn nokkra viðveru í þinghúsinu. Það er helst að fréttir séu sagðar ef stælarnir eru nógu miklir í þingsal. Minna fer fyrir efnislegum fréttum af þingmálum sem liggja utan þingsalar. Er þó oft eftir verulegu að slægjast þar fyrir þá sem telja sig hafa upplýsingaskyldu að gegna við almenning. Vissulega kann að vera erfiðara að koma auga á „fréttir“ sem liggja utan ræðustóls alþingis. Sæmilegt fréttanef og raunverulegur áhugi á þjóðmálum og pólitík innan og utan hinna eiginlegu stjórnmála ætti samt að koma mönnum fljótt á sporið. Það er hins vegar sársaukalaust af minni hálfu að helga þennan vettvang minn hér af og til því sem ég tel til tíðinda af störfum okkar þingmanna, eins og t.d. eftirfarandi.Hjón bera ábyrgð á skattskuldum hvort annars. Það er undantekning frá meginreglunni að hvort hjóna beri ábyrgð á sínum skuldum. Í þessu ljósi er samsköttun hjóna komin til. Maður nýtir ónýttan persónuafslátt maka og litið er á fjárhag hjóna saman sem heimilistekjur, t.d. við úthlutun bóta. Þegar þriggja þrepa tekjuskattur var tekinn upp 2010 var hins vegar innleidd sérstök regla fyrir hjón sem féllu ekki í sama tekjuskattsþrep. Það hjóna sem er í efsta þrepi getur bara nýtt helming af ónýttri nýtingu hins í miðþrepinu. En þó það.Fyrr í vor mælti fjármálaráðherra fyrir afnámi þessarar heimildar. Um næstu áramót verða skattþrepin tvö og fyrir efnahags- og viðskiptanefnd hafa komið fram ábendingar um að við afnám heimildarinnar skapist verulegt ójafnræði í skattlagningu milli heimila, allt eftir því hvort hjónin hafi svipuð laun eða ekki. Munur á tekjuskattsbyrði tveggja heimila með sömu heimilistekjur getur þannig numið 781 þús. krónum. Það á hreinlega að refsa heimilinu með eina fyrirvinnu um þessa fjárhæð. Hvers vegna?Lítil málefnaleg rök hafa verið sett fram til stuðnings þessu ójafnræði. Rökstuðningur ráðuneytisins, um mögulegt kynjamisrétti, um meint hlutverk hins opinbera við tekjudreifingu og staðhæfingar þess um að samsköttunarheimildin gagnist bara hátekjufólki verðskuldar fréttaumfjöllun. Og víst er að launþegar, margir umbjóðendur ASÍ, hefðu af því gagn en ekki gaman að fá af því fréttir að ASÍ fagnar mjög afnámi samsköttunarheimildarinnar. Hverra erinda gengur ASÍ?Hér eru sem sagt ýmsir fréttapunktar. Það er þó ekki frétt að ég styð ekki afnám heimildarinnar.
Samsköttun hjóna er meginregla sem helgast af réttindum og skyldum sem hjón bera. Tvö heimili með sömu tekjur eiga að bera sömu skatta. Kynjuð fjárlagagerð getur ekki vikið til hliðar grundvallarsjónarmiðum við skattlagningu.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins helgina 21. maí 2016. / saa@althingi.is