Gömul og góð

mbl080520161.png

Eftir að bankarnir lögðu upp laupana haustið 2008 hófst langdregin umræða um að þurrka þyrfti út stjórnarskrá lýðveldisins og skrifa nýja. Ég hef aldrei áttað mig á hvernig þessi mál tengjast, bankarekstur sem gekk ekki upp og stjórnarskráin sem tryggt hefur farsælt stjórnarfar hér á landi í yfir 70 ár. Hér er skipt um valdhafa með friðsamlegum kosningum, stjórnarskráin setur valdhöfunum nauðsynlegar skorður, almenn mannréttindi eru tryggð og þeir sem geta ekki leyst sjálfir úr ágreiningsefnum sínum fá þau borin undir óvilhallan dóm.Er þetta þá allt fullkomið? Nei auðvitað ekki, en má ekki velta fyrir sér hvort Ísland sé mögulega farsælasta lýðræðisríki veraldarsögunnar? Ef til vill má segja að ekki séu augljósar og sannfærandi mótbárur gegn þeim vangaveltum.Eitt af því sem kann að vera vanmetið og vanþakkað í þjóðfélagi eins og því íslenska er festa og fyrirsjáanleiki við stjórn landsins. Það á að vera hægt að treysta því að þótt hér verði aflabrestur, bankabyltur eða önnur óáran að ríkisvaldið leysist ekki upp eða menn séu sviptir mannréttindum.Mér sýnist stjórnarskráin einmitt hafa haldið ágætlega utan um stjórnkerfið sem slíkt, hvort sem er í blíðu eða stríðu, þótt að mínu mati hafi sumar stofnanir þess í einstaka tilvikum látið veður og vind feykja sér í hættulegar hæðir.Stjórnarskráin telur 80 greinar sem flestar eru í mesta lagi 2 málsgreinar. Textinn er auðlesinn hverjum sem er þótt vissulega hafi þurft að skýra einstaka ákvæði eftir lögfræðinnar kúnstarinnar reglum. En það hefur líka verið gert með þeim árangri sem á undan er lýst.„Allir skulu njóta heilnæms umhverfis“ er dæmi um ákvæði sem nýlega hefur verið lagt til að sett verði í stjórnarskrána. Segir í greinargerð að ákvæðið vísi til réttinda einstaklinga sem nú þegar eru varin af grunnreglunni um rétt til lífs og jafnvel einnig núgildandi ákvæðum stjórnarskrárinnar! Nánari málalengingar í greinargerð um þetta atriði hafa ekki aukið skilning minn á nauðsyn þessarar lagabreytingar.Það eru mikil verðmæti falin í yfir 70 ára góðri reynslu af stjórnskipunarlögum landsins. Við þekkjum söguna og getum áfram gert ráð fyrir að úr sameiginlegum vandamálum þjóðarinnar verði greitt innan þess ramma sem stjórnarskráin setur valdhöfunum. Þegar fyrir liggur svo verðmæt og jákvæð reynsla þurfa að vera alveg sérstakar og auknar ástæður fyrir því að varpa stjórnarskrá fyrir róða. Stjórnarskráin er þar að auki æðsta réttarheimildin í landinu, sem allar aðrar víkja fyrir. Hvert orð sem ritað er í stjórnarskrá getur því haft verulegar afleiðingar vítt og breitt um þjóðfélagið.

Jafnvel smávægilegar breytingar á stjórnarskrá geta haft víðtæk áhrif á ólík svið þjóðlífsins. Áhrifin eru ekki öll fyrirsjáanleg.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 8. maí 2016.

Previous
Previous

Tíst frá alþingi

Next
Next

Sótsvört neyslustýring