Lofa minna, efna meira

kjosandi1.jpg

Menn hafa sjálfsagt misjafnt yndi af kosningabaráttu eins og þeirri sem nú er hafin. Sjálf hef ég alltaf haft gaman af kosningum, ekki síst eftir að ég fór sjálf í framboð. Ég segi ekki að þetta sé jafn spennandi og skemmtilegt og leikir Íslands á EM í sumar en nærri því.Eitt af því sem kjósendur og hagsmunahópar þeirra gera er líður að kosningum er að krefja frambjóðendur svara um ýmis hugðarefni. Oft eru þetta spurningar um hve miklum fjármunum frambjóðandinn ætli að bæta í tiltekinn málaflokk eða jafnvel mjög afmarkaða starfsemi sem stendur spyrjanda nærri. Og þarna er ekki átt við hve miklum fjármunum frambjóðandinn ætli að deila úr eigin vasa. Nei, þarna er átt við hvort frambjóðandinn gæti hugsað sér að seilast eftir nokkur þúsund krónum úr vasa hvers skattgreiðanda og gata eins og eina heiði fyrir afraksturinn. Þó fylgir fyrri parturinn sjaldnast með. Það er bara spurt hvort menn séu tilbúnir að eyða. Það á enginn sérstakur að borga, bara einhver og allir.Ég er í framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fer á laugardaginn eftir viku. Ég fæ auðvitað þessar spurningar. Þær eru oft orðaðar fallega eins og: Hvað ætlar þú að gera fyrir...? Hvernig ætlar þú að bæta kjör...?Ég hef bara eitt svar við þeim öllum. „Ég gef bara engin loforð um ný útgjöld á kostnað annarra í framtíðinni.“Það er næg ástæða fyrir þessu svari að skuldir ríkisins eru enn verulegar, vaxtakostnaður mikill og skattar háir. Við eigum engan rétt á að senda börnunum okkar reikning fyrir skuldunum sem fylgja okkar sameiginlega sjóði og háir skattar draga úr líkunum á því að við getum stækkað þennan sameiginlega sjóð til langs tíma.Þess utan trúi ég því að stjórnmálamenn almennt vilji að skattfé renni til mála sem skipta verulegu máli, að létta undir með þeim sem standa höllum fæti og tryggja öryggi borgaranna í hvívetna. En málið vandast þegar frambjóðendur hafa gefið loforð út og suður í von um að verða kosnir. Þá verður minna til skiptanna í þau mál sem jafnvel pólitískir andstæðingar eru sammála um að eigi að vera í forgangi.Næstu árin skiptir öllu máli að renna styrkari stoðum undir okkar sameiginlega sjóð svo hann geti veitt varanlegt svigrúm til þess að mæta sífellt nýjum áskorunum í þeim málaflokkum sem við teljum mestu skipta. Ég lofa því að lofa ekki framlögum úr þessum sjóði í þeim eina tilgangi að ná kjöri. Ég hvet sjálfstæðismenn í Reykjavík til þess að fjölmenna í prófkjör okkar og lýsa yfir stuðningi við þennan málstað.

Það er þrýst á okkur þingmenn um útgjaldaloforð fyrir kosningar. Ég hef bara eitt svar við öllum slíkum kröfum. „Ég gef bara engin loforð um ný útgjöld á kostnað annarra í framtíðinni.“

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 28. ágúst 2016. / saa@althingi.is  Mynd: Alexandru Nika/Shutterstock.

Previous
Previous

Vasareiknirinn

Next
Next

Morgunverðarfundur um endurheimt votlendis