Afnám tolla er raunhæfur kostur
Það ætti að vera öllum Íslendingum metnaðarmál að lækka vöruverð hér á landi. Í umræðu undanfarið hafa menn einkum litið til innflutningsgjalda þegar leitað er skýringa á háu verðlagi. Um leið og farið er að rýna í innflutningsgjöldin blasir við hversu mikil frumskógur hefur orðið til í tímans rás úr reglum um tolla, vörugjöld og virðisaukaskatt. Í umræðu þeirra sem láta sig málið varða gætir þess jafnvel að menn greini einfaldlega ekki á milli þessara tveggja fyrirbæra, tolla og vörugjalda. Og víst er að neytendur eiga litla möguleika á að gera sér grein fyrir í innkaupum hversdagsins hvernig álagningu þessara gjalda er háttað. Mönnum ber hins vegar saman um að álagning innflutningsgjalda sé flókin, ógagnsæ og afskaplega ósanngjörn með tilliti til mismunandi vöruflokka. Það sem skýtur hins vegar skökku við í umræðunni er að þó að það hljómi eins og menn virkilega vilji einfalda skattheimtuna þá eru menn ekki beinlínis að leggja til þá einföldun sem þarf. Lækkun vörugjalda er auðvitað góðra gjalda verð, og ætti tvímælalaust að vera markmið löggjafans á komandi vetri, en hún einfaldar í sjálfu sér ekki skattheimtuna. Þá hefur nokkuð borið á því að menn leggi áherslu á að matvara fái sérstaka meðferð við skattlagningu. Nú þegar bera matvörur lægri virðisaukaskatt og nú finnst mönnum fýsilegt að fella af þeim vörugjöld, eða að minnsta kosti af landbúnaðarafurðum. En hér liggur hundurinn einmitt grafinn. Menn eiga nú þegar erfitt með að koma sér saman um hvað sé matvara. Enn og aftur missa menn sjónar á kostum þess að einfalda kerfið frekar en að flækja það með undanþágum og sértækum aðgerðum.Tollarnir vernda evrópskar vörurTekjur ríkissjóðs af vörugjöldum eru rúmir 30 milljarðar króna á ári. Tekjur af tollum nema hins vegar bara rúmum 3,5 milljörðum á ári. Tollarnir hafa hins mun meiri áhrif á neysluvenjur og verðlag hér á landi en þessar tölur gætu gefið til kynna. Tollar leggjast nefnilega einungis á vörur sem upprunnar eru utan hins Evrópska efnahagssvæðis. Þannig standa bandarískar vörur, matvörur, fatnaður, húsgögn og hvað eina annað sem flokka má sem hefðbundnar neysluvörur á íslenskum heimilum, óhjákvæmilega verr í samkeppninni við evrópskar vörur. Neytendur bera augljóslega tapið af samkeppnisskortinum. Þetta hefur verið einkar áberandi undanfarið þegar staða bandaríkjadals hefur verið veik gagnvart íslensku krónunni. Þrátt fyrir þann hagstæða gengismun hafa bandarískar vörur ekki fengið að njóta þess í þeim mæli sem eðlilegt væri ef þær sætu við sama borð og evrópskar vörur. Bandarísk jakkaföt, sem bera 15% toll, keppa auðvitað ekki með eðlilegum hætti við evrópsk jakkaföt sem bera engan toll. Íslensk barnafjölskylda sem kaupir leikföng í miklum mæli stendur frammi fyrir því vali að kaupa evrópsk leikföng sem bera engan toll eða til dæmis bandarísk sem bera 10% toll. Borðlampi sem kemur utan EES svæðisins ber 10% toll og 15% vörugjald en evrópskur lampi einungis vörugjaldið, sem er auðvitað ærið. Hinn hái virðisaukaskattur sem leggst ofan á í öllum tilvikum ýkir verðmuninn svo enn frekar. Þótt hér hafi bandarískar vörur verið nefndar gildir það sama um allar vörur frá öðrum löndum utan EES svæðisins. Íslenskir neytendur bera kostnaðinn af verndarstefnu Evrópusambandsins gagnvart evrópskri framleiðslu.Tökum frumkvæði í eigin málumÞað er afar brýnt að Sjálfstæðisflokkurinn bregðist við þeirri jákvæðu þróun sem virðist eiga sér stað með því að sífellt fleiri, jafnvel hörðustu talsmenn ofurskatta á vinstri vængnum, átta sig á því að skattar, tollar og vörugjöld og flókið regluverk því tengt, skerða lífsgæði. Afnám tolla er leið sem ekki kostar ríkissjóð miklar tekjur en eykur fjölbreytni í verslun og veitir neytendum raunhæfa möguleika á að leita hagkvæmustu leiða til að minnka útgjöld heimilanna. Afnám vörugjalda verður svo í framhaldinu takmarkið.