Mislæg

Á einu mislægu gatnamótum Miklubrautar (grænn hringur) á þessari mynd eru áberandi fæst slys.

Á einu mislægu gatnamótum Miklubrautar (grænn hringur) á þessari mynd eru áberandi fæst slys.

Kortið hér að ofan sýnir svonefnda hitamynd slysa á fernum gatnamótum Miklubrautar á árunum 2010 - 2020. Kortið er fengið af vef Samgöngustofu en þar má skoða allt landið á þennan hátt og velja svæði og tímabil og slys eftir alvarleika þeirra. Þetta eru mjög gagnlegar og aðgengilegar upplýsingar.

Myndin sýnir fern gatnamót. Eins og sjá má eru mörg slys á þrennum af þessum fernum gatnamótum en fá slys á einum. (Hið sama gildir um svokölluð óhöpp án slysa á fólki sem koma ekki fram á þessari mynd.) Ég hef dregið grænan hring um þessi einu gatnamót sem skera sig úr. Það eru gatnamót Miklubrautar við Skeiðarvog/Réttarholtsveg.

Hvers vegna eru færri slys þar en til að mynda á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar?

Áttirnar skildar að

Gatnamót Miklubrautar við Skeiðarvog/Réttarholtsveg eru mislæg en hin ekki. Götur sem skerast eru aðskildar og þau fáu óhöpp sem verða eru ekki alvarleg enda bílar ekki lengur að mætast úr öllum áttum.

Það kom fram í fréttum árið 2002 að tjónum þar hefði fækkað um 90% eftir að gatnamótin voru gerð mislæg.

Þrátt fyrir að þetta liggi fyrir hefur Reykjavíkurborg um árabil algerlega vanrækt að greiða fyrir umferð, auka öryggi og draga úr mengun með gerð mislægra gatnamóta. Grófasta dæmið er líklega af gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar þar sem borgin hefur dregið lappirnar árum saman. Samgöngusáttmálinn gerði ráð fyrir að hafin yrði gerð mislægra gatnamóta á Bústaðavegi/Reykjanesbraut á þessu ári. Framkvæmdunum hefur nú verið frestað vegna skipulagságreinings af hálfu borgaryfirvalda.

Öryggi fyrir alla vegfarendur

Auðvitað er misjafnt hve góðar aðstæður eru til gerðar mislægra gatnamóta, meðal annars vegna nálægrar byggðar. Með réttri hönnun þurfa þau hins vegar ekki að rísa hátt í landinu og hægt er að taka betra tillit til gangandi og hjólandi vegfarenda en á ljósastýrðum gatnamótum.

Hér að neðan má svo sjá aðra hitamynd slysa vestar úr borginni af þrennum gatnamótum Hringbrautar. Mislægu gatnamótin við Snorrabraut skera sig skýrt frá hinum hvað slys varðar.
Þrátt fyrir þessar skýru upplýsingar hafa mislæg gatnmót ekki notið sannmælis hjá borgaryfirvöldum. Þingmenn Reykjavíkur verða að láta sig þetta varða við afgreiðslu fjárlaga næstu árin. Ég mun í öllu falli áfram gera það.

hitakortslysa8.PNG
Previous
Previous

Eytt í eitt í einu

Next
Next

Tekið á tilhæfulausum umsóknum