Tekið á tilhæfulausum umsóknum

umsoknir_um_alth_vernd.png

Þegar ég tók við embætti dómsmálaráðherra í byrjun árs 2017 blasti við mér að áhlaup hafði verið gert á landið með tilhæfulausum umsóknum um alþjóðlega vernd. Stór hluti umsækjenda (um 70% árið 2016) kom frá tveimur Evrópuríkjum, Albaníu og Makedóníu. Þar var ekkert slíkt neyðarástand að réttlætti flótta þaðan til Íslands í stórum stíl.

Þessar tilhæfulausu umsóknir yfirfylltu það kerfi sem Ísland hefur sett upp til verndar fólki sem er á raunverulegum flótta undan vopnuðum átökum, ofsóknum og öðrum hörmungum í sínu heimalandi. Hér var því ekki aðeins vegið að hagsmunum íslenskra skattgreiðenda, sem greiða allan kostnað við þetta kerfi, heldur einnig að getu Íslands til að sinna fólki í raunverulegri neyð.

Ríkisfangi fylgja skyldur

Ef til vill höfum við sjálf átt einhvern þátt í þessari óheillaþróun með útdeilingu Alþingis á íslenskum ríkisborgararétti til manna sem uppfylltu ekki almenn skilyrði fyrir þeim rétti. Um bein tengsl þarna á milli er auðvitað erfitt að fullyrða en það er ekki gott ef það spyrst út að íslensk vegabréf standi til boða með handahófskenndum hætti. Í Albaníu voru fluttar fréttir af veitingu íslensks ríkisborgarréttar til Albana í lok ársins 2015. Það er ekki óvarlegt að ætla að sá stríði straumur Albana hingað til lands í kjölfarið eigi sér skýringar í þeim fréttum. Jafnframt er rétt að hafa í huga að íslenskur ríkisborgararéttur veitir ekki aðeins rétt hér innanlands heldur greiðir íslenskt vegabréf og orðspor Íslands götu manna víða um heim og leggur um leið skyldur á íslenska ríkið að gæta hagsmuna viðkomandi hvar sem er í veröldinni.

Andstaðan við lagfæringar

Nokkrar aðgerðir þurfti til að sporna gegn þessum tilhæfulausu umsóknum um vernd. Öllum þeim laga- og reglugerðabreytingum sem ég beitti mér fyrir í því skyni var mætt með gauragangi og stóryrðum í fjöl- og samfélagsmiðlum. Þessi upphlaup í miðlunum virðast ein besta gæðavottunin sem stjórnmálamaður getur fengið á störf sín.

Aðgerðirnir höfðu það í för með sér að á næstu þremur árum fækkaði umsóknum frá þessum tveimur löndum yfir 90%. Sömu sögu má segja af umsóknum frá Georgíu í kjölfar þess Georgíumenn fengu áritunarfrelsi inn í Evrópusambandið árið 2017. Þeim fækkaði einnig um 90% frá 2017 til 2019. Að þessu leyti tókst að stöðva misnotkun á velvild Íslendinga gagnvart fólki á flótta.

Nýjar áskoranir bætast hins vegar jafnt og þétt við í þessum efnum. Hverri tilraun til að bregðast við ástandinu er mætt með uppnámi innan þings sem utan.

Í þingkosningum í haust verður meðal annars tekist á um hvort ábyrgð og festa eða upphlaup og handahóf hafi meira vægi þegar kemur að þeirri alþjóðlegu vernd sem hér er í boði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. maí 2021.

Previous
Previous

Mislæg

Next
Next

Samgöngur í Reykjavík