Þingvarlastjórnin
Þá er Þingvallastjórnin búin að kveðja. Fólkið með eggin, grjótið og bálkestina sagði hana ekki hafa umboð kjósenda þótt leitun hafi verið að myndarlegri þingmeirihluta. Flokkarnir sem að henni stóðu voru jafnframt sammála um að boða til þingkosninga í vor og sækja nýtt umboð. Í fjarveru formannsins liðaðist Samfylkingin hins vegar í sundur. Við stjórninni er tekin stjórn tveggja flokka sem fengu samtals 41% atkvæða í þingkosningum fyrir tveimur árum. Í stjórninni sitja tveir ráðherrar sem enginn hefur kosið og engum kom til hugar að yrðu handhafar framkvæmdavaldsins. Þetta er svipað sýnishorn af lýðræðisbyltingu Samfylkingar og landsfundur hennar þar sem 500 fundargestir greiddu 890 atkvæði.Samfylkingin og VG treysta svo engum af lýðræðislega kjörnum þingmönnum sínum til að stýra dómsmálaráðuneytinu. Jafnvel ekki hinum löglærðu Ágústi Ólafi Ágústssyni, Lúðvík Bergvinssyni, Árna Páli Árnasyni, Ellerti B. Schram eða Atla Gíslasyni. Nýr formaður Framsóknarflokksins telur flokkinn ekki heldur hafa umboð kjósenda. Það má vissulega segja um hann sjálfan. Ókjörinn á þing tók hann hins vegar þá ákvörðun að verja minnihlutastjórn vinstri flokkanna falli.Þá þótti hinni nýju ríkisstjórn mikilvægt að skipta út reynslumiklum þingmanni í sæti forseta Alþingis fyrir einn reynsluminnsta þingmanninn. Það þykir brýnt jafnvel þótt nær allir þeir þingmenn sem hina nýju stjórn skipa hafi sjálfir kosið tiltekinn forseta Alþingis í upphafi kjörtímabils og enginn ágreiningur hafi verið um störf hans hingað til. Svona eru hugmyndir vinstri flokkanna um skilvirkni í þingstörfum.Þegar svo þingmenn Framsóknarflokksins höfðu sagst ekki telja sjálfa sig hafa nægt umboð til að setjast í stjórn, þá kröfðust vinstriflokkarnir þess að framsóknarmenn styddu Gylfa Magnússon dósent til ráðherradóms. Hver kaus hann? Gagnvart hverjum ber hann ábyrgð?Svona starfa vinstri flokkarnir þegar þeir segjast vera sérstaklega lýðræðissinnaðir. Hvernig eru þeir ella?Grein birt í Fréttablaðinu 7. febrúar 2009.